Tuesday, August 24, 2010

Hóstum í kór!


Er að stíga upp úr tveggja vikna veikindum. Aftur. Ónæmiskerfi mitt virðist smán saman vera að leggja upp laupana. Einkum fyrir litlum veirusýkingum og kvefi.

Eftir að hafa þurft að kljást við þónokkra kvilla, fjarri því lífshættulega en sem skerða mjög lífsgæðin, hef ég misst nokkuð álit á heilbrigðiskerfinu og vestrænum læknavísindum. Hin vísindalega aðferð, sem einkennir læknavísindin, er að kryfja allt, að hætti Descartes, niður í sem smæstar einingar. Við þessa „krufningu“ virðist heildarmyndin oft tapast í læknavísindunum.

Það er stundum eins og byrjað sé á öfugum enda. Í stað þess að „heilbrigðiskerfið“ haldi öllum heilbrigðum, getur maður varla leitað innan kerfisins nema að hafa einhverja kvilla og helst þá stóra, annars er maður sendur heim til að liggja þetta úr sér. Aftur og aftur. Frændi minn sagði mér að í Kína (einhvern tímann) hefði þorpslæknirinn fengið borgað eftir því hvort hann næði að halda öllum í þorpinu heilbrigðum, ekki eftir hinum veiku sem heimsóttu hann. Hljómar eins og dæmisaga en forgangsröðunin virðist rétt.

Eftir þetta veikindasession mitt virðist einmitt eins og heilbrigðiskerfið sé fyrst og fremst ætlað að halda manni á lífi, ekkert endilega heilbrigðum. Það er sannarlega mikilvægt að halda fólki á lífi. Hitt þyrfti bara að fá aukið vægi líka. og líkaminn skoðaður út frá heild sinni, í staðinn fyrir að velta lungunum fyrir sér einn daginn, magnanum annan og hausinum hinn.

Ég sá að einhver skynsemishyggjumaðurinn hneykslaðist á því hve margir væri að leita á mið alternatívra lækninga. En mér sýnist það spretta af skynseminni einni. Nálastungur og slíkt virðast byrja á réttum enda; að líta á líkamann í heild sinni og vinna markvisst að því að auka lífsgæði manns.

Ég ætlaði nú helst að skrifa um hvað líkaminn væri merkilegt, flókið fyrirbæri. Hve skrýtið það væri að vera svona ómeðvitaður um virkni síns eigin líkama. En frústrasjón mín varð þessum háfleygu pælingum yfirsterkari.

So long and thanx for all the fish.

4 comments: