Tuesday, August 24, 2010

Hóstum í kór!


Er að stíga upp úr tveggja vikna veikindum. Aftur. Ónæmiskerfi mitt virðist smán saman vera að leggja upp laupana. Einkum fyrir litlum veirusýkingum og kvefi.

Eftir að hafa þurft að kljást við þónokkra kvilla, fjarri því lífshættulega en sem skerða mjög lífsgæðin, hef ég misst nokkuð álit á heilbrigðiskerfinu og vestrænum læknavísindum. Hin vísindalega aðferð, sem einkennir læknavísindin, er að kryfja allt, að hætti Descartes, niður í sem smæstar einingar. Við þessa „krufningu“ virðist heildarmyndin oft tapast í læknavísindunum.

Það er stundum eins og byrjað sé á öfugum enda. Í stað þess að „heilbrigðiskerfið“ haldi öllum heilbrigðum, getur maður varla leitað innan kerfisins nema að hafa einhverja kvilla og helst þá stóra, annars er maður sendur heim til að liggja þetta úr sér. Aftur og aftur. Frændi minn sagði mér að í Kína (einhvern tímann) hefði þorpslæknirinn fengið borgað eftir því hvort hann næði að halda öllum í þorpinu heilbrigðum, ekki eftir hinum veiku sem heimsóttu hann. Hljómar eins og dæmisaga en forgangsröðunin virðist rétt.

Eftir þetta veikindasession mitt virðist einmitt eins og heilbrigðiskerfið sé fyrst og fremst ætlað að halda manni á lífi, ekkert endilega heilbrigðum. Það er sannarlega mikilvægt að halda fólki á lífi. Hitt þyrfti bara að fá aukið vægi líka. og líkaminn skoðaður út frá heild sinni, í staðinn fyrir að velta lungunum fyrir sér einn daginn, magnanum annan og hausinum hinn.

Ég sá að einhver skynsemishyggjumaðurinn hneykslaðist á því hve margir væri að leita á mið alternatívra lækninga. En mér sýnist það spretta af skynseminni einni. Nálastungur og slíkt virðast byrja á réttum enda; að líta á líkamann í heild sinni og vinna markvisst að því að auka lífsgæði manns.

Ég ætlaði nú helst að skrifa um hvað líkaminn væri merkilegt, flókið fyrirbæri. Hve skrýtið það væri að vera svona ómeðvitaður um virkni síns eigin líkama. En frústrasjón mín varð þessum háfleygu pælingum yfirsterkari.

So long and thanx for all the fish.

Friday, August 6, 2010

Gæði eða magn, gaaaamla tuggan.


Miðað við byrjunina get ég ekki lofað ykkur tíðari bloggfærslum en einni á viku. Þannig er það bara. Nefnilega tíminn, sem líður of hratt.

Var að koma af Hornströndum og frá Ísafirði. Eins klisjulega og það hljómar, var gangan á Hornströndum afar endurnærandi og endalaus orkuuppspretta. Nú vil ég bara fjallgöngur, fjallgöngur, fjallgöngur (en ekki tjöld þó). En aftur er það tíminn sem líður of hratt. Beit það í mig að fara í Kverkfjöll í sumar en það er ekki að fara að gerast. Er mega pirruð yfir því en verður að bíða næsta sumars.

Alltaf þegar ég hugsa um komandi tíma, held ég í ofurbjartsýni minni að ég geti gert þúsund hluti. Raunin er náttla sú að kannski 10% af þeim eru framkvæmanlegir jafnvel þegar ég er upp á mitt duglegasta. Svo margar bækur, svo margir staðir, svo margar kvikmyndir, svo margar hugsjónir, svo mörg verkefni…og fólk náttla.

eeeen af hverju er maður að reyna að komast í gegnum þetta allt? Ávallt munu verða fleiri bækur, myndir, staðir, dót sem maður kemst ekki yfir. Er það til þess að vera samræðuhæfur ?(samanber að ég er það ekki þessa dagana þar sem ég hef ekki séð Inception) Er það fyrir eigin sjálfsþroska og skilning? Nær maður sjálfsþroskanum frekar á 100 bókum á ári en 10?

Með árunum hallast ég nú eðlilega frekar af gæði en magni (45 Ísfólksbækur á 6 vikum 97 á móti þremur Blikktrommum Günter Grass árið 2007...ekki að ég haldi upp á Blikktrommuna neitt svakalega)

En þetta er og verður frústererandi, ég óska þess mjög að vera ofvirk og sofa bara 4 tíma á nóttu og koma öllu í verk. Ain't gonna happen beibís.

Var annars að lesa góða bók, Býfluga eða The Other Hand eftir Christ Cleave. Þótt að stíll og persónusköpun sé bara í meðallagi þá er pólitískur "boðskapur" hennar afar mikilvægur, en hún gerir illri meðferð á flóttamönnum í Bretlandi góð skil. Catching bók er góð leið til þess að vekja athygli á þessum málaflokki sem svo margir vilja skella skollaeyrunum við.

Dettur hvorki manneskja né kvikmynd bloggfærslunnar í hug. Hornstrandir eru staðurinn og kannski litlu rebbarnir þar "manneskjur" færslunnar! Er svo að fara í Þórsmörk um helgina til þess að seðja fjallgöngublætinu! Alla vega eitthvað.

Megiði eiga gæfuríka tíð lömbin góð.

nanbrauð.